Húsfriðarspjöll

Gengið af göflum - Grannar í gíslingu

Á íbúum fjölbýlishúsa hvílir sú skylda að haga framkomu sinni, hagnýtingu og umgengni, þannig að aðrir íbúar verði ekki fyrir meiri ama og óþægindum en óhjákvæmilegt er. Þeim ber að taka sanngjarnt og eðlilegt tillit til sambýlisfólks síns og ekki má hagnýta sameiginlegt húsrými eða lóð til annars en hún er ætluð. Íbúum ber að virða hagsmuni og rétt sambýlinga og fara að skráðum og óskráðum umgengnisreglum og ákvörðunum húsfélagsins og að lögum, góðum siðum og venjum í hvívetna. Hin gullnu gildi sem ráða hvernig gengur og fer eru tillitssemi og umburðarlyndi. Þau verða að vera til staðar í ríkum mæli og í góðu jafnvægi ef sambýlið á að lukkast. Öll mannleg háttsemi, lestir og brestir, getur orðið að brotum og ónæði í augum og eyrum granna og dæmin sanna að fólk getur verið hver öðru til ama og leiðinda á óteljandi vegu.


Bann við búsetu og dvöl. Brottvísun. Sala. Neyðarúrræði. 
Fjöleignarhúsalögin hafa að geyma kröftug úrræði við grófum eða ítrekuðum brotum eigenda eða íbúa. Ef hinn brotlegi lætur ekki segjast við aðvörun getur húsfélagið lagt bann við búsetu og dvöl hans í húsinu og gert honum að flytja og krafist þess að hann selji íbúð sína.  Þessi úrræði eru fyrst og fremst sett til höfuðs alvarlegum brotum  og til verndar hús- og heimilisfriði annarra eigenda.  Áður en unnt er að beita þeim verður að aðvara hinn brotlega. Mjög  brýnt er að aðvörun sé með réttum hætti því þar er hornsteinninn lagður og réttmæti frekari aðgerða er háð því að þar sé allt með réttu gert. Við beitingu þessara úrræða verður að hafa hugfast að þetta eru neyðarúrræði, sem ekki má beita nema þegar allt um þrýtur. Tilgangur þessa er að vernda líf, eignarrétt og heimilisfrið eigenda, sem hljóta að eiga ríkari rétt í húsinu en hinn brotlegi að  fara sínu fram með yfirgangi og skeytingarleysi. Til að dómstólar fallist á að beita þessum úrræðum verður að sanna brot eiganda. Eins verður að gæta réttra aðferða við töku ákvörðunar.
 
Grannagrýla. Með illu skal illt út drífa. Áminning.
Að fá brotlegan eiganda og viðhengi hans burt úr húsi er oft þung þraut en með illu skal illt út drífa.  Þetta eru þrautaúrræði sem grípa má til þegar allt um þrýtur og önnur sund eru lokuð. Brotin verða að vera alvarlegs eðlis og sýnt að fortölur og aðvaranir hafi ekki dugað. Stjórn húsfélags getur veitt áminningu og aðvörun án þess að húsfundur hafi áður um það fjallað. Hins vegar þarf húsfundur að taka ávörðun um að banna eiganda búsetu, gera honum að flytja og selja íbúð sína.  Það er nægilegt að fundur fjalli þá um málið og taki ákvörðun þegar fyrir liggur að áminning hafi ekki stoðað. Hafa verður í huga aðstöðuna og tilganginn með áminningum af þessu tagi, sem er að bregðast við vandræðum og koma á friði og reglu á húsinu. Ef fullkomin sönnun þyrfti að liggja fyrir áður þá myndi þetta úrræði missa marks og þá væri varnaðargildi ákvæðisins að litlu orðið.
 
Sönnun og dómsmál.
Gerðar eru ríkar kröfur til sönnunar. Með þessum úrræðum er verið að skerða eða höggva í stjórnarskrávarinn eignarrétt eiganda en vel að merkja í því skyni að vernda ríkari rétt annarra íbúa til að búa við eðlilegar aðstæður í friði og án röskunar af hálfu hinna skeytingarlausu. Skikkanlegt og friðsamt fólk á líka sinn eignarrétt og nýtur líka verndar stjórnarskrárinnar eins og þeir sem brjóta af sér og er ekki eru í húsum hæfir. Ef ekki vill betur verður yfirleitt að höfða venjulegt einkamál til að knýja fram brottflutning, búsetubann og sölu íbúðar. Þar fer fram sönnunarfærsla með skjölum og vitnaskýrslum og ríkar kröfur eru gerðar um sönnun. Sönnunargögn í slíkum málum eru einkum lögregluskýrslur og önnur gögn um lögregluafskipti. Í grófum og augljósum tilvikum er hugsanlega hægt að fara einfaldari, skemmri og fljótfarnari leið með svonefndri beinni aðfarargerð. 


 
Aðild.
Það er í fyrsta lagi húsfélag sem getur beitt þessum úrræðum en ef það gerir það ekki geta einstakir eigendur farið á stúfana á eigin spýtur. Málið strandar því ekki á því að aðrir eigendur vilji ekki ljá atbeina sinn. Hins vegar er það alltaf sterkari máltilbúnaður þegar húsfélag eða allir aðrir eigendur standa saman í málinu til sóknar. En stundum bitnar ónæði meira á einum en öðrum. Aðstæður, staðhættir og skipulag er tíðum þannig að sumir verða fyrir ónæðinu meðan aðrir finna ekki fyrir því. Það er meira á brattan að sækja þegar samstaða næst ekki og sækjandi er einn á báti en leiðin er samt fær. Það eru ekki bara brot eigenda sem falla hér undir. Úrræðunum verður einnig beitt gegn öðrum  brotlegum íbúum, s.s. fjölskyldu og venslaliði eiganda og leigjendum hans. Eigandi íbúðar hefur fráleitt meiri rétt  að láta illum látum og brjóta gegna sameigendum sínum en aðrir íbúar.
 
Fúlheit og fríðleiksskortur dugir ekki. Sönnunargögn.
Þetta eru mjög afgerandi úrræði og þarf brot því að vera alvarlegt og eru gerðar ríkar sönnunarkröfur. Það er ekki nægilegt að íbúi sé fúll á móti, leiðinlegur og ófríður, til að honum verði gert að flytja og selja. Það þarf snöktum meira til. Hann verður að vera sannur að grófum eða ítrekuðum brotum sem gera hann óhæfan til að búa í fjölbýli. Sönnunarbyrðin á húsfélaginu, sem verður í fyrsta lagi að sýna fram á að réttra formsatriða hafi í hvívetna verið gætt við töku ákvarðana, áminningar, aðvaranir o.þ.h. Í annan stað eru gerðar ríkar kröfur  um sönnun brota og alvarleika þeirra og að viðkomandi hafi ekki látið segjast þrátt fyrir aðvaranir. Skýrslur lögreglu eru langmikilvægustu sönnunargögnin í slíkum málum og má jafnvel segja að málin standi og falli á grundvelli þeirra.
 
Lögregluafskipti.
Þegar um íbúi fjölbýlishúss brýtur af sér eru grannar hans oft nauðbeygðir að fá lögregluaðstoð til að skakka leikinn og tryggja sönnun fyrir brotunum. En vel að merkja þá eru fjöleignarhúsalögin af einkaréttarlegum toga og brot á þeim eru yfirleitt ekki lögreglumál.  Almennt eiga deilur og ónæðis- og samskiptamál í fjölbýlishúsum ekki undir lögreglu. Lögreglan hefur almennt ekki afskipti af einkaréttindum og deilum fólks á því sviði. Telji fólk á sér brotið í því efni verður það að leita réttar síns fyrir almennum dómstólum, kærunefndum eða stjórnvöldum. Afskipti lögreglunnar af þessum málum byggjast ekki á fyrirmælum fjöleignarhúsalaga, heldur á því að um brot sé að ræða á lögreglusamþykkt eða einhverja aðra refsiverða háttsemi, t.d. fíkninefna- eða ofbeldisbrot. Lögreglan hefur afskipti af brotum á refsilögum, þ.á. m. lögreglusamþykktum þar sem bannað er að raska  svefnró fólks. Það er fyrst og fremst á þeim grundvelli sem lögreglan hefur afskipti af  fólki í fjölbýli. En líka þegar um að ræða ofbeldi og skemmdarverk og eiturlyfjabrask- og neyslu.  Sem sagt: Sé um röskun á svefnfriði eða refsilagabrot að tefla þá er lögreglunni rétt og skylt að hafa afskipti af málum.
 
Stóra sorp- og ruslmálið. Þrjátíu ára þrautarganga.
Kastljós hefur beinst að réttarstöðu fólks í fjölbýli þegar ónæði af völdum sameigenda keyrir um þverbak. Aðalkveikjan er héraðsdómur sem uppkveðinn var í október s.l. þar sem konu var gert að selja íbúð sín vegna óþæginda og tjóns sem sameigendur höfðu orðið fyrir um áratuga skeið vegna áráttu hennar að sanka að sér sorpi og rusli sem hún fyllti íbúðina með. Einnig var íbúð hennar  í fullkominni niðurníðslu og óíbúðarhæf. Þá var öll umgengni hennar um sameign vægast sagt slæm. Þá var talið að aðrar íbúðir lægju undir skemmdum og eins var verðmæti annarra íbúða og sölumöguleikar skertir vegna þessa. Var talið að hún hefði með þessu gerst sek um gróf og ítrekuð brot á skyldum sínum gagnvart sameigendum sínum. Var konan að kröfu húsfélagsins dæmd á grundvelli 55. gr. fjöleignarhúsalaga til selja íbúð sína. Það hefur vakið athygli hversu lengi þetta ófremdarástand varði áður en dómurinn loks gekk. Hefur fólk að átt bágt með að trúa því að þrjátíu ára stapp og stögl hafi þurft til þegar brot eru svona langvinn og  borðleggjandi. Þótt úrræði fjöleignarhúsalaganna séu öflugri, ítarlegri og gangi lengra en í löggjöf  þjóða í námunda við okkur þá er það svo upp og ofan hvernig fólki gengur að framfylgja þeim. Barátta og málstapp getur tekið drjúgan tíma og kostað, ómælda arnmæðu og útheimt  þrek, seiglu og úthald.  Það á hins vegar ekki að taka langan tíma að reka slík  mál ef rétturinn er skýr, brotin skýlaus og fullnægjandi sönnunargögn liggja fyrir. En oft dettur botninn úr málum vegna þess að hlé verður á brotum og sameigendur vilja trúa að varanlegur friður sé brostinn á. Það reynist einatt tálsýn og svo sækir í sama horfið. Þegar lognið reynist svikalogn þarf svo að endurstarta upp á nýtt og þá hefst ný og tímafrek þrautaganga.  Í því  efni er ekki við fjöleignarhúsalögin að sakast, heldur trúgirni, umburðarlyndi og langlundageð sameigenda. Stundum er um hreina uppgjöf að ræða.
 
Dópgreni og dólgar. Ekki heiðra skálkinn. Óverandi og ófarandi.
Þess eru dæmi að dópistar og glæpahyski, sem áður kúldruðust í hrörlegum hreysum, hreiðri um sig í friðsælum  fjölbýlishúsum og hverfum. Landsliðið í dópi, afbrotum og sukki, gerir sig heimakomið og fer sínu fram með ógnum og ofbeldi. Hroðaleg umgengni og jafnvel íkveikjur. Ónæði og áreiti er ómælt og allur friður úti og sóðaskapur er yfirgengilegur og skemmdarverk daglegt brauð.  Þeir sem kvarta fá fyrir ferðina. Svona húsbölvaldar eru gjarnan ofsafengnir og uppfullir af ranghugmyndum og til alls ills vísir. Þeir geta valdið gífurlegri röskun á lifi saklausra sambýlinga. Í flest skjól fýkur og það er hvorki verandi né farandi. Ógn og ótti er ríkjandi, börnum er ekki óhætt einum og fylgja þarf þeim hvert fótmál. Pillur og sprautur liggja á glámbekk fyrir barnafótum í sameigninni. Stigagangarnir notaðir sem salerni. Svona ógæfulið tekur aðfinnslum afar illa og leitar gjarnan hefnda og því skirrast sameigendurnir við að kalla til lögreglu. Lífið umturnast í skelfingu og martraðir í svefni og vöku.  Fólk upplifir sig bjargarlaust í gíslingu og þorir hvorki að æmta né skræmta. Svona mál eru oftast torsótt og erfið þótt lagalegur réttur þolenda og réttleysi gerenda sé augljós. Yfirleitt er um að ræða harmleik fyrir alla, bæði  þolendur og hina brotlegu sem oftast eru fársjúkir þrælar fíkna sinna og hafa misst sjónar á þeim gildum sem mannleg samskipti byggjast á. Þegar reynt er að koma tauti við ónæðisseggina bregðast þeir ókvæða við og taka og svara með ofbeldi og hótunum en um það vitna mörg vítin að ekki er hægt að kaupa húsfrið með undirgefni og undanlátssemi. ,,Heiðraðu skálkinn svo hann skaði þig ekki” gerir bara illt verra.
 
Geðsjúkir í sambýli. Hvar eiga veikir að vera?
Annað veifið koma til Húseigendafélagsins mál vegna óþæginda og ónæðis af völdum geðsjúks fólks í sambýli. Óþægindin eru misjöfn og af margvíslegum toga. Hegðun þess og viðbrögð vilja vera ýkt og ofsafengin. Oft eru þeir ógnandi og vekja skelfingu nágranna sem eiga von á hinu versta á nóttu sem degi. Verst er þegar saman fer geðveiki og eiturlyf. Dæmi eru um hótanir, líkamsmeiðingar, skemmdarverk og íkveikjur í kjölfar kvartana. Það er hins vegar ömurlegt að beita harkalegum lagaúrræðum gegn fársjúku fólki sem lifir í heimi ranghugmynda og hefur ekki skilning á gerðum sínum, framkomu og stöðu. Tekur vinsamlegar umvandanir sem ofsóknir og árás og bregst við samkvæmt því. Það er dapurlegt að fárveikt fólk sé borið út á guð og gaddinn. Þótt vandamál sé leyst á einum stað þá dúkkar það bara upp í öðru húsi. Vandamálin leysast í sjálfu sér ekki heldur flytjast bara í annað hús og verða þar böl. Því einhvers staðar verða jú veikir að vera. Þetta er ekki húsnæðismál, heldur samfélagslegt vandamál og mein.
 
Varnaðaráhrif. Fælingarmáttur.
Þótt fáir dómar og úrskurðir hafi gengið um þessi úrræði fjöleignarhúsalaga þá hafa þau ótvírætt gildi til varnaðar. Mál leysast oftast án þess að til málaferla, útburða og sölu eigna kemur. Einnig gera hinir brotlegu sér oft grein fyrir vonlausri lagalegri stöðu sinni og flytja og selja. Ákvæði  fjöleignarhúsalaganna hafa reynst vel og þau hafa fælingarmátt og ótvírætt varnaðargildi. Tilvist úrræðanna duga í mörgum tilvikum til að ónæðisvaldar haldi sér á mottunni og taki upp betri siði.  Það verður vart gengið öllu lengra í því efni. Þetta eru vel að merkja kröftugri og skilvirkari úrræði en í löggjöf nágrannaþjóða okkar. Hins vegar má e.t.v. auðvelda málareksturinn og sönnunarfærslu í slíkum málum. Lögreglan hefur mikið á sinni könnu og þar er mikið sparað og hún hefur takmarkaðan mannskap og tíma til að sinna útköllum og skýrslugerð vegna svona mála, nema í alvarlegustu tilvikum.  Hugsanlega má byggja á öðrum sönnunargögnum en lögregluskýrslum í  meira mæli en nú er gert, t.d. skýrslum eða vottorðum frá öryggisfyrirtækjum og upptökum og myndum.  Nú stendur yfir að tilstuðlan velferðarráðherra endurskoðum fjöleignarhúsalaganna og eru þessi úrræði og atriði til skoðunar í ljósi reynslunnar og skoðað hvort breytinga sé þörf.

#Friðarspjöll

#Grenndarreglur

#Krafa