Húsfundaþjónusta Húseigendafélagsins

Nú stendur yfir tími aðalfunda í húsfélögum þar sem einatt eru teknar ákvarðanir um mikilvæg mál og kostnaðarsamar framkvæmdir.

Samkvæmt fjöleignarhúsalögum gilda ákveðnar reglur um töku ákvarðana.  Ákvörðun um sameiginleg málefni skal tekin á húsfundi. Mjög mikilvægt er að fundurinn sé boðaður og haldinn í samræmi við fyrirmæli fjöleignahúsalaga.

Skyldur stjórnar.
Það er stjórn húsfélags sem boðar til aðalfundar og ber ábyrgð á því að fundarboðun sé lögleg. Sú skylda hvílir á stjórninni að undirbúa aðalfundi af kostgæfni, bæði fundarboðið, tillögur, skiplag, umgjörð og stjórn fundarins. Stjórn er heimilt að fá ráðgjöf og aðstoð sérfræðinga við aðalfundi. Oft er það nauðsynlegt til að rjúfa sjálfheldu vegna deilna í húsfélaginu
 
Löglegir fundir. Skakkaföll.
Það er almennt forsenda fyrir lögmæti ákvörðunar um viðhaldsframkvæmdir og fyrir greiðsluskyldu eigenda, að ákvörðunin hafi verið tekin á fundi sem er rétt og löglega boðaður og haldinn. Of mörg dæmi eru um húsfélög og stjórnarmenn þeirra, sem hafa orðið fyrir tjóni og skakkaföllum vegna þess að kastað var til höndum við undirbúning og framkvæmd húsfunda. 
 
Með allt á hreinu.
Þótt það virðist ekki vera mikið vandaverk að halda húsfundi, sem standast lagakröfur og eru bærir til að taka lögmætar ákvarðanir, þá reynist það oft þrautin þyngri. Þess vegna og til að mæta brýnni þörf setti Húseigendafélagið á laggirnar sérstaka og altæka þjónustu um allt sem að húsfundum lýtur. Þeim húsfélögum sem vilja hafa allt á hreinu í þessu efni og leita aðstoðar húsfundaþjónustunnar fer ört fjölgandi með hverju árinu. Í Húseigendafélaginu eru ríflega 500 húsfélög og er það einkum aðgangur að lögfræði- og húsfundaþjónustu sem þau sjá sér akk í.
 
Húsfundaþjónustan.
Hér er um að ræða alhliða húsfundaþjónustu, þ.e. lögfræðilega ráðgjöf og aðstoð við fundarboð og tillögur og gangaöflun. Lögmaður með sérþekkingu annast fundarstjórn og ritun fundagerðar er í höndum laganema. Einnig er séð fyrir fundarhúsnæði enda brýnt að húsnæði sé viðunandi og henti til funda í.
 
Öryggisráðstöfun.
Þessi þjónusta á að tryggja lögmæta fundi og að rétt sé staðið að töku ákvarðana en á því vill oft verða misbrestur með afdrifaríkum afleiðingum eins og mörg dæmi sanna. Þessi þjónusta er því skynsamleg öryggisráðstöfun fyrir alla, bæði eigendur og viðsemjendur húsfélags, banka og verktaka.  Fundur, sem er undirbúinn og haldinn  af þekkingu og fagmennsku, er ávallt og að öllu leyti betri, málefnalegri, markvissari og árangursríkari fundur en þar sem fum og fúsk ræður.
 
Hófleg þóknun.
Fyrir þessa þjónustu er tekin mjög sanngjörn þóknun, sem miðast við hóflegt tímagjald og þann tíma, sem í verkið fer. Hér er boðin fram sérþekking, kunnátta og reynsla og er gjaldið fyrir þjónustuna lágt í ljósi þess og einnig þegar haft er í huga að hún fyrirbyggir deilur og hugsanlegt fjártjón. Það er því mikið hagsmunamál fyrir alla eigendur og aðra að húsfundir séu rétt haldnir þannig að ákvarðanir þeirra verði ekki vefengdar síðar með þeim leiðindum og fjárhagslegu skakkaföllum sem því fylgir.
 
Félagsaðild. Upplýsingar.
Til að fá þessa þjónustu þurfa húsfélög annaðhvort að vera í Húseigendafélaginu eða ákveða að tillaga um félagsaðild verði á dagskrá viðkomandi húsfundar. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Húseigendafélagsins að Síðumúla 29, sími 588-9567, fax. 588-9537 og tölvupóstfang postur@huso.is. Á skrifstofu félagsins og heimasíðu þess,www.huso.is, er hægt að nálgast lög og reglur um húsfundi og frekari upplýsingar, fróðleik og greinar um efnið.

#Húseigendafélagið