Aðalfundur Húseigendafélagsins: Erindi um tryggingaiðgjöld á fasteignir.

Aðalfundur Húseigendafélagsins: Erindi um tryggingaiðgjöld á fasteignir.

Erindi flutt á aðalfundi Húseigendafélagsins 4. mars 2016 - Þórir Sveinsson


Tryggingaiðgjöld á fasteignir og álögur á húseigendur.
Í erindi þessu ætla ég að ræða um álögur á húseigendur á formi brunatryggingaiðgjalda á fasteignir. Ég fjalla um grundvöllinn fyrir brunatryggingum, skiptingu iðgjaldsins á gjaldaþætti og hvað er framundan er varðar gjaldtöku á fasteignaeigendur í því samhengi.


Trygging húseigna og hvað er tryggt.
Skylt er að vátryggja allar húseignir á Íslandi með brunatryggingu og hvílir skyldan á eigendum húseigna. Vátryggingarfjárhæð húseignar er hin sama og brunabótamat hennar. Oft vantar þó upp á að eignir séu endurmetnar ef farið hefur fram meiri háttar lagfæringar, endurbætur eða breytingar hafa verið gerðar á þeim, framkvæmdir sem breyta verðmæti eignarinnar. Sem dæmi má nefna að oft gleymist að láta verðmeta sólpalla og ýmiss önnur mannvirki, s.s. gróðurhús, geymsluskúra og útihýsi ýmis konar sem bætast við síðar, og eru hluti af húseigninni. Þessar eignir þarf að meta sérstaklega inn í brunabótamatið til að þær falli undir vátryggingaverndina.
Ýmsir hlutar húseigna eru ekki metnir þegar brunabótamat húseigna er ákvarðað og falla því ekki undir tryggingaverndina. Má þar nefna rotþrær og lagnir frá grunni húsa út að lóðamörkum, heimreiðar og bæjarhlöð. Ennfremur telst búnaður á lóðum ekki hluti af fasteign, s.s. leiktæki, stoðveggir, frístandandi skjólveggir, stéttir og bílastæði, ljós í lóð, rafmagns- og regnvatnslagnir, skólplagnir, snjóbræðsla, skýli og heitir pottar og er því þessi búnaður utan tryggingaverndar.
Það ætti þó að vera hægt að skilgreina þennan búnað og verðmæti hans og tryggja hann sérstaklega en leggja þarf í frekari vinnu í verðmætagreiningu og þannig finna forsendur fyrir álagningu iðgjalda fyrir búnaðinn.


Brunatryggingar og skipting iðgjalda.
Brunatrygging húseigna er samheiti yfir iðgjöld sem eru lögbundin og innheimt af öllum fasteignum sem skráðar eru og hafa verði metnar með brunabótamati. Iðgjöldin skiptast í bruna-iðgjald, byggingaröryggisgjald, brunabótamatsgjald, ofanflóðasjóðsgjald og viðlagatryggingar-iðgjald, og eru ofanflóðasjóðsgjaldið og viðlagatryggingariðgjaldið þessara gjalda þýðingarmest ef litið er til hlutfalls þeirra í heildar brunatryggingariðgjaldinu sem húseigendum er skylt að greiða.


Brunatrygging.
Í lögum um brunatryggingar nr. 48 frá 1994 segir að húseigendum er skylt að brunatryggja allar húseignir þar sem húseignir eru skilgreindar sem hvers konar byggingar sem ætlaðar eru til íbúðar, atvinnustarfsemi, geymslu eða annarra afnota. Í lögunum segir ennfremur að vátryggingarfjárhæð húseignar skal nema fullu verði eignarinnar eftir virðingu og að Þjóðskrá Íslands skuli annast þessa virðingu samkvæmt matskerfi og verklagsreglum stofnunarinnar. Heiti þeirrar gerðar er brunabótamat. Upphæð brunaiðgjaldsins eða prómill af brunabótamatinu rennur til tryggingafélags vátryggingartakans/húseigendans og er oft umsemjanlegt, þ.e. oft er hægt að fá tilboð frá tryggingarsalanum í upphæð iðgjaldsins.


Byggingaröryggisgjald.
Lög um mannvirki nr. 160 frá 2010 gilda um byggingaröryggisgjaldið og er lagt á fasteignir til að fjármagna starfsemi Mannvirkjastofnunar. Meðal verkefna sem stofnunin skal inna af hendi er að tryggja samræmingu á byggingareftirliti og eldvarnaeftirliti, hafa eftirlit með starfsemi slökkviliða og brunaeftirliti um land allt o.fl. Í lögunum um mannvirki segir í 50. gr. að:
Vátryggingafélög og aðrir sem annast vátryggingar skulu árlega innheimta með iðgjöldum sínum sérstakt byggingaröryggisgjald. Byggingaröryggisgjaldið skal nema 0,045 prómillum af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár, svo og samsettra vátrygginga sem fela í sér brunatryggingu.


Brunabótamatsgjald.
Lög um skráningu og mat fasteigna nr. 6 frá 2001 gilda um brunabótamatsgjaldið og er lagt á fasteignir til að fjármagna starfsemi Þjóðskrár Íslands (áður Fasteignamat ríkisins) og Landskrá fasteigna. Í dag er þetta gjald 0,026‰ af vátryggingarfjárhæð eða brunabótamati fasteigna.


Ofanflóðasjóðsgjald.
Lög nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum gilda um Ofanflóðasjóð. Í 12. gr. laganna segir að tekjur sjóðsins er gjald sem lagt er á allar brunatryggðar húseignir í landinu sem nemur 0,3‰ af vátryggingarfjárhæð eignar og er gjaldið innheimt með iðgjaldi brunatrygginga.
Helstu verkefni eða meginhlutverk sjóðsins eru fyrirbyggjandi framkvæmdir vegna hugsanlegra snjóflóða og skriðufalla. Önnur verkefni eða hlutverk hans eru að greiða kostnað vegna byggingar og viðhalds varnarmannvirkja, uppkaup á fasteignum innan skilgreinds hættu-svæðis, kaup og uppsetning á tækjum og búnaði vegna rannsókna og eftirlits með ofanflóðum og til að standa undir kostnaði vegna reksturs sjóðsins og ofanflóðanefndar. Einnig ber sjóðurinn kostnað við gerð hættumats Veðurstofu Íslands vegna ofanflóða og kostnað við starfsemi hættu-matsnefnda. Viðbótarhlutverk, sem nýlega voru lögð á sjóðinn, eru verkefni samkvæmt lögum nr. 22/2012 þar sem sjóðnum er heimilað tímabundið að taka þátt í kostnaði vegna vinnu við hættumat fyrir eldgos. Þessi lög, sem féllu úr gildi 31. desember 2014, voru framlengd með lögum nr. 127/2014 sem heimilaði ofanflóðasjóði að halda áfram að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa svo og vegna vatnsflóða og sjávarflóða frá 1. janúar 2015 til 31. desember 2017. Heildartekjur sjóðsins á árinu 2014 námu um 2,0 ma.kr.


Viðlagatryggingargjald.
Lög nr. 55/1992 gilda um Viðlagatryggingu Íslands. Iðgjöld viðlagatryggingar nema nú 0,25‰ af vátryggingarfjárhæð, sem er brunabótamat, þegar um er að ræða húseignir og 0,20‰ þegar um er að ræða eignir sveitarfélaga og veitustofnana sem skylt er að vátryggja.
Hlutverk Viðlagatryggingar Íslands er að vátryggja gegn tjóni af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Iðgjöld ársins 2014 námu samtals tæpum 2,5 ma.kr. Lögin um Viðlagatryggingu Íslands hafa verið í endurskoðun og gert var ráð fyrir að tillögur um breytingar á lögunum yrðu lagðar fram fyrir 1. mars 2016.


Dæmi um kostnað vátryggingartaka.


Sveitarfélag.
Ótilgreint sveitarfélag er með samning við Vátryggingarfélag Íslands hf. um að brunatryggja allar sínar fasteignir. Brunabótamat fasteigna sveitarfélagsins nemur um 3,8 ma.kr. og brunaiðgjöld ársins 2016 eru alls rúmar 3,0 millj.kr. Brunaiðgjaldið sjálft, þ.e. gjaldið sem fer til VÍS er einungis rúmar 700 þús.kr. eða um 24% af heildargjaldinu. Önnur gjöld eru því 76% af upphæðinni og þar af 37% til Ofanflóðasjóðs, 31% Viðlagatryggingar og loks byggingar-öryggis- og matsgjaldið tæp 9%.


Einstaklingur.
Af húseign minni hér í Reykjavík, sem er hæð í þríbýlishúsi auk bílskúrs, greiði ég 28.700 kr. í brunaiðgjöldin þar af er þriðjungur brunaiðgjaldið sjálft, ofanflóðasjóðsgjaldið rúm 32%, viðlagatryggingariðgjaldið tæp 27% en önnur gjöld tæp 8%.
Þessar tölur sýna okkur glöggt að verulegur hluti af brunaiðgjöldum sem fasteignaeigendur greiða í dag renna til annarra aðila en til vátryggingarfélagsins. Þarna er því um að ræða gjaldtöku til að fjármagna starfsemi ýmissa opinbera aðila eða til að verja eigur og verðmæti auk þess að bæta tjón af völdum náttúruvá.
Heildarbrunabótamat allra bygginga í landinu á árinu 2015 var 6.967 ma.kr. eftir endurmat og hafði hækkað úr 6.626 ma.kr. frá síðasta endurmati. Samkvæmt þessu námu heildarálögur á fasteignaeigendur á árinu 2015, sem runnu til opinberra aðila, rúmum 4,3 ma.kr. og er því um verulega háar fjárhæðir að ræða sem fasteignaeigendum er gert að greiða umfram brunaiðgjaldið sjálft.


Hvað er að gerast í þessum málum í dag?
Á liðnu ári þ.e. 2015 urðu mikil vatnstjón á húseignum á Ísafirði og í Fjallabyggð vegna mikils úrhellis eða leysinga svo og tjón vegna Skaftárhlaups og óveðurs í Fjarðabyggð. Þessi tjón fengust lítið sem ekki bætt nema sum þeirra eftir mikla eftirgangssemi sveitarstjórnarmanna og annarra.
Í framhaldi af þessum atburði eða í október 2015 ákvað ríkisstjórnin, að tillögu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, að skipaður yrði starfshópur undir forystu umhverfis- og auðlindaráðuneytis sem hefði það hlutverk að gera tillögu um stofnun sérstaks sjóðs vegna náttúruhamfara, hamfarasjóðs. Umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði þann 2. nóvember 2015 starfshópinn á grundvelli framangreindrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar. Í skipunarbréfi starfs-hópsins segir að honum sé ætlað að gera tillögur um stofnun sérstaks sjóðs vegna náttúruhamfara, hamfarasjóðs. Nú liggur fyrir skýrslan „Skýrsla starfshóps um stofnun hamfarasjóðs“, útgefin 26. janúar 2016.


Hamfarasjóður.
Í tillögum starfshópsins er lagt til að nýr sjóður Hamfarasjóður taki við hlutverki Ofanflóðasjóðs og A–deildar Bjargráðasjóðs (lög nr. 49/2009), en A-deildin hefur það verkefni að veita einstak-lingum og félögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar beint tjón af völdum náttúruhamfara á gjaldskyldum fasteignum samkvæmt skilgreiningu laga um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. lög um Þjóðskrá Íslands, og girðingum, túnum og rafmagnslínum er tengjast landbúnaði.
Bjargráðasjóður (A-deild) hefur verið fjármagnaður með framlagi úr ríkissjóði á fjárlögum hvers árs, um 10 millj.kr. á ári. Hamfarasjóður á að skiptast í tvær deildir, forvarnasjóð sem hýsi verkefni Ofanflóðasjóðs og bótasjóð sem hýsi verkefni A-deildar Bjargráðasjóðs. Í skýrslunni er lagt til að ákveðinn hluti ofanflóðasjóðsgjaldsins og vaxtatekjur standi undir rekstri hamfarasjóðsins að hluta ásamt hluta af iðgjaldi Viðlagatryggingar auk þess að nýleg verkefni Ofanflóðasjóðs á sviði forvarna vegna náttúruhamfara, eins og eldgosa, vatns- og sjávarflóða og annarrar náttúruvár falli þar undir. Einnig verði til staðar heimild fyrir ríkissjóð til að greiða í bótadeild hamfarasjóðs ef upp kæmu slíkar náttúruhamfarir að hamfarasjóður geti ekki staðið undir greiðslu bóta og kostnaðar. Í tillögum starfshópsins er lagt til að tekjum Ofanflóðasjóðs verði skipt milli deilda þannig að 75% ofanflóðasjóðsgjaldsins eða 0,225‰ af vátryggingarverðmæti færi inn í forvarnardeild hamfarasjóðsins, sem árið 2014 nam rúmlega 1500 millj.kr., og að 25% gjaldsins eða 0,075‰ af vátryggingarverðmæti færi inn í bótadeild hamfarasjóðsins, sem árið 2014 nam rúmlega 500 millj.kr.
Með stofnun hamfararsjóðs er verið að festa í sessi gjaldtöku á húseigendur til frambúðar þannig að álögum verði létt af ríkissjóði u.þ.b. 450-500 millj.kr. ári, en fasteignaeigendum einum ætlað að bera allan kostnað á margvíslegri náttúruvá, en ekki samfélaginu öllu.
Það er mitt álit að ríkissjóður sé að koma sér undan kostnaði sem velta skal nú yfir á fasteignaeigendur. Við því ber að sporna.


4. mars 2016.
Þórir Sveinsson, stjórnarmaður í Húseigendafélaginu.


Heimildir.
Byggt er á skýrslu starfshóps um stofnun hamfararsjóðs, lögum um brunatryggingar o.fl. laga, skýrslu Þjóðskrár Íslands um brunabótamat 2015, ársreikninga og ársskýrslu Viðlagatryggingar Íslands 2014, auk tölulegra gagna í umsjón fyrirlesara.