Dómur um lagnir í fjöleignarhúsi

Þann 3. október sl. féll dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2967/2017 þar sem deildi á um hvort lagnir fjöleignarhúss væru í séreign eða sameign.

Deilur höfðu staðið með eigendum í fjöleignarhúsi um hvort frárennslis- og skolplagnir hússins væru í sameign allra eigenda eða í eigu hvors húshluta. Húsið skiptist í tvo hluta, og stendur hver hluti á eigin lóð. Í hverjum hluta eru síðan tvær íbúðir, þ.e. fjórar alls í fjöleignarhúsinu. 

Í dóminum kemur fram að aflað var matsgerða tveggja dómkvaddra matsmanna, þar sem niðurstaðan var m.a. svo gott sem samhljóða um að lagnakerfin væru tvö og næstum algjörlega aðskilin. Í forsendum dómsins sagði þó: 

,,Fjöleignarhúsið er byggt sem ein heild og stendur undir einu þaki. Fallast verður á það með stefnendum að samkvæmt grunnrökum og meginreglum fjöleignarhúsalaga eru allar lagnir slíks fjöleignarhúss, þar á meðal skólplagnir, í sameign eigenda. Þá túlkun verður og að telja í bestu samræmi við lagasjónarmið á þessu réttarsviði. Lagnakerfi fjöleignarhúss hljóta í samræmi við tilgang sinn að miðast fyrst og fremst við hagkvæmni og kostnað þar sem valdar eru lausnir út frá aðstæðum og hagsmunum hússins í heild, en ekki með sérstöku tilliti til þess að lega eða afnot lagna gagnist beinlínis fleiri eða færri eignarhlutum hússins. Ráða þannig aðstæður og hagkvæmni hvort fleiri eða færri eru um tiltekna lögn. Slík ákvörðun þjónar sameiginlegum þörfum heildarinnar. Þá er það svo að þó að lagnakerfi fjöleignarhússins  séu að mestu aðskilin liggja þau samt saman bæði að því er varðar frárennsli regnvatns og aðkomu að stofnlögn. Þá myndi vanræksla viðhalds hluta kerfisins vera til þess fallin að raska hagsmunum allra húseigenda, t.d. með því að skapa skilyrði fyrir meindýr. Óhjákvæmilegt kann og að verða að gera í framtíðinni breytingar á kerfi hússins sem t.d. varða regnvatnskerfi þess og munu kalla á frekari sameiningu fráveitukerfa hússins. Í samræmi við þetta verður að telja að sanngjarnast sé fyrir heildina þegar til lengri tíma er litið að skoða lagnakerfi hússins sem eitt kerfi. Verður því fallist á meginkröfu stefnenda og viðurkennt að frárennslis- og skólplögn fjöleignarhússins, frá hverjum séreignarhluta að stofnæð í götu, sé sameign allra eigenda og kostnaður við viðgerð og endurnýjun skiptist eftir hlutfallstölum eignarhluta í sameign hússins."

Dóminn má nálgast í heild sinni hér: https://www.heradsdomstolar.is/default.aspx?pageid=347c3bb1-8926-11e5-80c6-005056bc6a40&id=3eed6a91-4a1a-4ab0-a86b-8c5e12813af1