Fjöleignarhúsalög og rafbílar.

Frá því í september í fyrra hefur Húseigendafélagið ásamt fleirum, rembst við að vekja athygli félagsmálráðherra og ráðuneytis hans á vandamálum varðandi hleðslu rafbíla í fjöleignarhúsum og brýnni nauðsyn á lagabreytingum í því efni, þ.e. á lögum um fjöleignarhús, varðandi bílastæði o.fl.

 

Hússeigendafélagið er 95 ára gamalt og rótgróið. Félagsmenn eru nálægt 10 þúsundi og þar af eru um 800 húsfélög í fjöleignarhúsum. Félagið hefur í áranna rás beitt sér fyrir réttarbótum varðandi fasteignir og náð verulegum árangri í því efni. Félagið hefur um áratuga skeið átt í miklum og góðum samskiptum við ráðherra og ráðuneyti félagsmála og hefur þekking og reynsla félagsins haft verulegt vægi og leitt til margra réttarbóta. En nú virðist öldin önnur.

 

Húseigendafélagið hefur leitt þetta mál með stuðningi helstu hagsmunaaðila og sérfræðinga á þessu sviði. Má þar nefna Félag ísl. Bifreiðaeigenda, Félag fasteignasala, Bílgreinasambandið og Öryrkjabandalagið. Einnig hefur Sambandi ísl. Sveitarfélaga stutt málið.

 

Vandamál hafa orðið og munu hrannast enn frekar upp í fjöleignarhúsum ef ekki verður brugðist við fljótlega með lagabreytingu sem opnar fyrir rafbíla í slíkum húsum. Þar er og  verður flöskuháls sem getur tafið boðaða rafbílavæðingu.

 

Þetta er mjög aðkallandi, brýnt mál sem þegar er orðið bagalegt og valdið hefur deilum og óróa í fjöleignarhúsum. Ástandið á eftir að verða mjög slæmt og ill viðráðanlegt þegar rafbílavæðingin færist í aukana ef ekkert verður að gert.  

 

Alls kyns reddingar og bráðalausnir hafa sést, leiðslur út um glugga, sem og illdeilur og tortryggni, menn berjast með köplum, klippa á leiðslur og taka úr sambandi hver hjá öðrum vegna meints rafmagnsstuldar o.fl. o.fl. Skeggöld og skálmöld vegna þessa virðist  í uppsiglingu, verði ekkert að gert.

 

Þetta er oftar og oftar að koma upp í viðskiptum um íbúðir. Það er orðið ákvörðunarástæða margra kaupenda að tenging og hleðsla fyrir rafbíla sé fyrir hendi eða möguleg. Þá hafa möguleikar í því efni áhrif á hvort fólk kaupir sér rafbíla eða annars konar bíla. Það er ekki viðunandi að svona atriði séu forsenda í íbúðar-og bílakaupum. Það hamlar þróuninni og skekkir allt.

 

Með breytingu á byggingarreglugerð er séð við þessu í nýbyggingum en í eldri húsum er þetta þegar orðið vandamál og mun vaxa ört og verða illa viðráðanlegt ef ekkert verður að gert.
 

Ég skrifaði lagabálkinn um fjöleignarhús á sínum tíma og lýsti mig reiðubúinn að taka að skoða þetta, safna upplýsingum og gögnum og semja drög að frumvarpi, eins og ég hef gert 3 eða 4 sinnum áður þegar brýn þörf hefur kallað á. Ég bauðst til að gera það án þóknunar vegna þess hve mikið er í húfi og málið brýnt fyrir eigendur i fjöleignarhúsum.

 

Ég ræddi  þetta við aðra helstu sérfræðinga landsins á þessu sviði og eru þeir voru á einu máli um að best og nærtækast væri að fela mér þetta verk. Þetta eru m.a. núverandi og fyrrverandi formenn kærunefnda á þessu sviði og fræðimenn, lagakennarar og dómarar.

 

Frá því í september í fyrra hef ég rembst við að ná eyrum og athygli ráðherra og ráðuneytisstarfsmanna á þessu máli. Hef ég lengst af talað fyrir daufum eyrum og erindum mínum ekki verið svarað.

 

Loks í byrjun mars, eftir langa mæðu, lánaðist  að fá áheyrn félagsmálaráðherra. Mætti ég á fund hans ásamt framkvæmdastjóra Félags fasteignasala.

 

Fundurinn  var góður og gagnlegur og upplýsandi en skilaði því miður litlu eða engu.  

 

Í vor var sagt að vinna við frumvarp hæfist strax, starfshópur yrði skipaður og frumvarp lagt fram í haust. Það hefur ekki gerst og hefur heyrst ávinningur um að nú sé horft til vorþingsins en ekkert annað og meira virðist hafa verið gert.

 

Þannig stendur málið núna eftir 14 mánaða streð og alltaf syrtir í álinn.

 

En fyrst það tókst með kossi að vekja Þyrnirósu eftir 100 ára svefn stendur von til að vakning verði í þessu efni og verkin verði látin tala en ekki verði áfram látið reka á reiðanum og sitja við orðin tóm.

 

Við höfum tröllatrúa á félagsmálaráðherra og vitum að hann er öflugur og vill gott gera í þeim málum sem undir hann heyra. Það er hins vegar spurning hvað segja má um þá starfsmenn ráðuneytis hans sem hafa þessi mál á sinni könnu. Þeir virðast ekki vera mjög vakandi og áhugasamir og seinir til svara og verka.

 

Minnispunktar SHG

13. nóvember 2018.