Lög um fjöleignarhús og húsaleigu

Er þar fyrst að nefna gildistöku fjöleignarhúsalaganna og húsaleigulaganna í ársbyrjun 1995, en félagið átti frumkvæði að samningu og setningu þeirra. Formaður félagsins, Sigurður Helgi Guðjónsson, er höfundur laganna um fjöleignarhús og jafnframt aðalhöfundur nýrra húsaleigulaga. Auk þess samdi Sigurður reglugerð um eignaskiptayfirlýsingar, sem tók gildi um árámótin 2000 og 2001 og hafði miklar réttarbætur í för með sér.

Félagið hefur ávallt stuðlað að og barist fyrir auknu öryggi og festu á sviði húsaleigu og heiðarlegum viðskiptum og heilbrigðum leigumarkaði. Núgildandi lög gjörbreyttu ástandinu og höfðu í för með sér verulegar réttarbætur bæði fyrir leigusala og leigjendur og leigumarkaðinn í heild.

Lög um fasteignakaup

Áralöng barátta félagsins fyrir setningu laga um fasteignaviðskipti bar árangur á árinu 2002 þegar Alþingi setti í fyrsta sinn lög um fasteignakaup. Fram að þeim tíma höfðu ekki gilt sérstakar skráðar reglur á þessu mikilvæga réttarsviði, heldur byggðist réttarstaða manna á ýmsum óskráðum meginreglum og dómafordæmum.  Fyrir vikið gat réttarstaðan í ýmsum tilvikum verið óljós.

Með setningu vandaðra og ítarlegra laga um fasteignakaup var margs konar réttaróvissu því eytt og hefur vafatilvikum og dómsmálum fækkað í þessum málaflokki. Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, vann að gerð laganna en höfundur þeirra var Viðar Már Matthíasson lagaprófessor og Hæstaréttardómari.

Lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa

Alþingi samþykkti vorið 2004 ný lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, sem miða að því að gera fasteignaviðskipti öruggari í alla staði og tryggja hagsmuni og stöðu kaupenda og seljenda gagnvart fasteignasölum.

Fyrri lög um fasteignasölu voru meingölluð og allsendis ófullnægjandi og hafði Húseigendafélagið lengi barist fyrir réttarbótum á þessu sviði. Auk þess sem Húseigendafélagið var einn af umsagnaraðilum við gerð frumvarps til laga um fasteignasölu veitti Sigurður Helgi Guðjónsson ýmsa ráðgjöf og aðstoð við frumvarpssmíðina.

 

Önnur lög og reglugerðir

Auk þessa hefur félagið haft afskipti af ýmsum öðrum lögum, lagafrumvörpum og reglugerðum, sem varða fasteignir, bæði beinlínis og með ábendingum og umsögnum.

 

Skattamálin

Það hefur verið sígilt baráttumál Húseigendafélagsins frá stofnun þess eða í um 90 ár að sporna við óhóflegum sköttum og gjöldum á fasteignir. Þótt málstaðurinn hafi verið góður og kröfur félagsins verið sanngjarnar og raunhæfar þá hefur árangur þeirrar baráttunnar oft verið sorglega lítill.

Stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, hafa gjarnan litið fasteignir hýru auga þegar auka hefur þurft tekjur hins opinbera. Fasteignir eru þekkt, skilgreind, kirfilega skráð og metin verðmæti, sem auðvelt er að ganga að og hengja nýja skatta og gjöld á.

Það er með ólíkindum hvað fasteignaeigendur hafa látið yfir sig ganga í þeim efnum án þess að æmta eða skræmta. Þeir hafa verið ótrúlega þolgóðir skattalega og seinþreyttir til vandræða og hefur yfirleitt verið erfitt að skapa samstöðu og baráttumóð meðal þeirra. Hefur eimt nokkuð eftir af doða verðbólgutímans þegar prósentur til eða frá höfðu litla þýðingu og menn létu það ekki raska ró sinni þótt skattar og gjöld hækkuðu.

Síðustu ár hefur afstaða og þankagangur fasteignaeigenda að þessu leyti breyst og skattavitund þeirra eflst ef svo má að orði komast. Húseigendafélagið hefur því afráðið að leggja í auknum mæli krafta sína í baráttuna gegn óhóflegum opinberum álögum á fasteignir.

Fasteignamatið

Skattar og gjöld eru yfirleitt reiknuð af fasteignamati eignar og þess vegna er brýnt að það sé rétt miðað við gildandi lagaforsendur þannig að samræmi sé og sambærilegar eignir séu metnar og skattlagðar með sama hætti.

Fasteignamat hækkaði mikið 15. september 2001 en þá var beitt nýjum aðferðum og reglum við matið. Ríki og sveitarfélög hafa lýst því yfir að skattar og gjöld muni ekki hækka þrátt fyrir hækkun fasteignamatsins.

Mun félagið fylgjast grannt með því og eins rannsaka nánar fasteignamatið og framkvæmd þess, ekki síst viðvíkjandi lóðir, og knýja á um breytingar ef þörf krefur.

Tryggingamálin

Tryggingamálin eru annað klassískt baráttumál félagsins. Á það við um hina lögboðnu brunatryggingu og einnig annars konar tryggingar sem nauðsynlegt er fyrir fasteignaeiganda að kaupa og hafa í gildi ef hann vill njóta viðunandi öryggis og tryggingaverndar.

Brunabótamatið

Samkvæmt brunabótamati sem tók gildi hinn 15. september 2001 lækkaði brunabótamat vissra eigna mjög verulega, einkum vegna afskrifta og fyrninga.

Blasir við að tryggingavernd margra húseigenda er mikið rýrari eftir en áður og er það öldungis óviðunandi. Í mörgum tilvikum er hrópandi ósamræmi milli markaðsverðs og brunabótamats og það upplifa eigendur sem stórskerta tryggingavernd.

Hér þarf annaðhvort að lagfæra gildandi reglur og/eða knýja á tryggingarfélögin að bjóða frjálsa viðbótarbrunatryggingu sem dekkar muninn á brunabótamati og raunvirði.

Þetta mál á sér margar hliðar og er í mikilli gerjun og mun Húseigendafélagið fylgjast náið með framvindunni og gæta hagsmuna húseigenda í hvívetna og hafa frumkvæði ef því er að skipta.

Aðstoð í húsaleigumálum

Útleiga húsnæðis getur verið í meira lagi áhættusöm fyrir leigusala ef hann fer ekki að öllu með gát. Vanskil eru tíð og viðskilnaður leigjenda við húsnæði er oft slæmur.

Húseigendafélagið veitir félagsmönnum sínum upplýsingar, ráðgjöf og aðstoð í húsaleigumálum. Félagið gerir húsaleigusamninga fyrir félagsmenn og ritar ýmsar tilkynningar, s.s. leigugreiðsluáskoranir, riftanir, uppsagnir o.fl. Lögfræðileg aðstoð stendur til boða þegar um vanefndir er að ræða.

Forsendur fyrir eiginlegum húsaleigumarkaði

Það er og hefur verið stefna Húseigendafélagsins að leiga sé og eigi að vera einn af sjálfsögðum valkostum í húsnæðismálunum.

Það er þó fyrst á síðustu 5 til 6 árum að lagalegar forsendur hafa skapast fyrir heilbrigðum leiguviðskiptum og húsaleigumarkaði.

Fjárhagslegar, rekstrarlegar og skattalegar forsendur hafa enn ekki skapast að fullu en þó hefur ýmislegt færst í jákvæða átt í þeim efnum. Þó virðist stöðugur leigumarkaður eins og þekkist í nágrannalöndum okkar ekki vera alveg á næsta leiti en verður vonandi til á næstu árum.

Það er brýnt að fasteignir, þ.m.t. leiguhúsnæði, verði vænlegur og samkeppnisfær fjárfestingakostur en til að svo megi verða þarf að búa fasteignarekstri viðunandi skilyrði skattalega og á annan hátt. Með því má auka framboð á almennu leiguhúsnæði og skapa forsendur og skilyrði fyrir eiginlegum og stöðugum leigumarkaði. Fyrir því mun Húseigendafélagið berjast áfram.

Landskrá fasteigna

Landskrá fasteigna er gagna- og upplýsingakerfi sem Fasteignamat ríkisins heldur og geymir upplýsingar um fasteignir og réttindi er þeim tengjast. Landskráin leysir af hólmi fasteignaskrár sveitafélaga og þinglýsingabækur sýslumanna um fasteignir.

Landskrá fasteigna geymir allar grunnupplýsingar um fasteignir og upplýsingar um stærðir, byggingaefni og lýsingu, auk fasteignamats og brunabótamats. Þá geymir hún upplýsingar um eigendur, veðbönd og kvaðir er máli skipta.

Mikilvægt er að skráning fasteigna sé ítarleg og nákvæm. Á það jafnt við um tæknilega lýsingu eignanna, þau réttindi og skyldur sem eignarréttinum fylgja og áhvílandi veðbönd.

Landskrá fasteigna er framfaraskref og réttarbót fyrir fasteignaeigendur því misræmi í opinberum skrám um fasteignir getur leitt til réttaróvissu og deilna.

Þá gefur Landskráin margvíslega möguleika fyrir eigendur til að skrá og geyma gögn og upplýsingar, svo sem um viðhald og rekstur eignar, húsfundagerðir, húsreglur o.fl. Mun Húseigendafélagið vinna að nánari útfærslu Landskrárinnar að þessu leyti ásamt Fasteignamati ríkisins.